BROSA!

brosa

Oooog BROSA! Ég elska góð quote og dýrka að tileinka mér einhvað nýtt sem getur gert daginn minn aðeins betri og bætt mig sem manneskju. Þegar að ég segi að hamingja sé ákvörðun þá meina ég aldrei að það sé auðveld ákvörðun!

Trúið mér, ég hef heldur betur þurft að vinna mér inn fyrir þessu brosi. Ég fer reglulega til sálfræðings og í ráðgjöf, hef oft þurft að taka inn þunglyndislyf eða önnur lyf sem auðvelda mér að vinna úr mínum málum. Ég hef oftar en einu sinni verið á þeim stað í lífinu að mér fannst allt svo tilgangslaust og að heimurinn væri betri án mín. Samt sem áður hef ég aldrei litið á þessi veikindi sem stimpil, að ég sé veikari fyrir vikið eða tæpari en næsti maður. Við eigum öll okkar daga, tímabil eða klukkustundir, ég er svo þakklát fyrir að það séu til lausnir fyrir fólk sem nær ekki að vinna úr þessum hlutum hjálparlaust. Það að leita sér hjálpar er stórt skref fyrir marga og mér finnst mjög gott að vita að það séu til úrræði þegar að vandamálin virðast óyfirstíganleg. Það þarf mikinn kjark að leita sér aðstoðar, því þá fyrst ertu að fronta vandamálin þín og það þarf mikið hugrekki að leggja í þá vinnu. Það var miklu auðveldara fyrir mig að fara bara niðri bæ og drekka úr mér allt vit, deyfa tilfinningarnar og ekki taka ábyrgð á neinu. Ég leit t.d aldrei á áfengi sem hluta af mínum vandamálum, heldur var það mín lausn. Þótt þynnkan hafi verið erfið þá var hún engan veginn jafn erfið og sjálfsvinnan sem að ég hef lagt í. En þessi sjálfsvinna hefur gert mig að mjög sterkum einstakling, það þýðir samt heldur ekki að ég eigi aldrei slæma daga, ég veit bara hvernig ég á að tækla þá!

Ég trúi því varla að árið 2019 séum við ennþá að stimpla fólk sem brotið, tæpt eða veikt sem er að vinna úr kvíða eða þunglyndi. Ég hélt að það væri bara partur af lífinu. Erum við í alvörunni að neita fagfólki að sinna sinni vinnu vegna þess að þeir tækla sín vandamál? Myndir þú ekki frekar vilja fá lögreglumann til þín sem að væri að tækla sína líðan frekar en að taka það út á þér eða aðstæðunum sem hann kæmi að?

Ég veit ekki hvort ég hefði lært að vinna úr mínum vandamálum hefði ég haft áhyggjur af því að ég myndi ekki fá það framtíðarstarf sem að ég óskaði mér útaf mínum aðstæðum, eða að fólkið í kringum mig færi að koma fram við mig eins og ég væri brothætt. Mér finnst það aðdáunarvert að fólk takist á við sín vandamál og nýti sér þá aðstoð sem að er í boði.

Ég tek ekki þunglyndislyf að staðaldri, ég tel mig ekki vera þunglynda manneskju en þegar ég finn að vanlíðan mín fer að verða mér ofviða þá veit ég hvert ég get leitað og mér finnst það rosalega góð tilhugsun að það séu til úrræði fyrir mig sem hjálpa mér upp úr þessu svartholi sem margir dragast ofan í. Það er engin skömm að vera með kvíða, þunglyndi eða önnur andleg veikindi! Skömmin liggur hjá þeim sem refsa fyrir slíkt!!

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *