Mín reynsla í gegnum fimm meðgöngur

gegnum meðgöngu

Eins og flestar mæður vita þá er engin meðganga eins. Upplifun þín á meðgöngu getur verið allt öðruvísi en hjá öðrum konum og er því engan veginn hægt að bera saman bækur sínar og segja að þetta virki en ekki hitt. En ég lofaði að taka saman nokkra punkta sem ég vona að eigi eftir að nýtast einhverjum mæðrum í gegnum þetta yndislega kraftaverka ferli sem líkaminn okkar gengur í gegnum.

Það eru nokkrir punktar sem ég hefði vilja vita fyrir mína fyrstu meðgöngu og fæðingu. Því eins og hlutirnir voru settir frammi fyrir mér var allt svo æðislegt, þú geislar á meðgöngunni og þótt að fæðingin sé erfið sé þetta allt þess virði því um leið og þú færð krílið í hendurnar þá gleymir þú öllum sársaukanum og við tekur bara yndislegur tími þar sem þú og barnið náið að tengjast í gegnum brjóstagjöfina og hamingju skýin umvefja ykkur… Já þetta var ekki alveg mín upplifun og þrátt fyrir að þetta sé allt þess virði þá hefði ég vilja fá að vita hina hliðina líka, hliðina sem ég heyri engar konur deila sín á milli. Alla veganna ekki jafn mikið og fallegu blóma hliðina.

Ég sá fyrir mér að þegar kæmi að því að ég myndi ganga með barn þá myndi ég gera einhvað óvænt út úr tilkynningu litla erfingjans og gleðin myndi þar með hefjast! En nei ég held að ég hafi aldrei grátið jafn mikið þegar læknirinn tilkynnti mér að ég væri ólétt og urðu tilkynningar mínar til minna nánustu í þeim dúr. Tár, hor og ekkar! Þrátt fyrir fimm börn hefur mér aldrei tekist að koma með þessa tilkynningu eins og ég sá fyrir mér fyrir mörgum árum, því annað hvort er þetta einhvað sem ég hef þurft smá tíma til þess að melta eða ég verið of spennt að bíða með tilkynningu og bara frussað þessu útúr mér við fyrsta tækifæri!

Meðgöngurnar hafa allar verið mjög svipaðar en samt svo ólíkar, meikar sens Neibb. Það sem ég á við er að ferlið sjálft hefur allt verið mjög svipað en upplifunin aldrei eins.
Ég hef upplifað meðgöngu þar sem ég hef geta gert allt sem mér langar til fram að fæðingardegi og ég hef upplifað meðgöngu þar sem rúmið mitt var minn helsti gríðarstaður fram að fæðingardegi!
Hér fyrir neðan ætla ég að taka nokkra punkta saman og svara þeim eftir minni reynslu.

Grindargliðnun :
Það var ekki fyrr en á minni fimmtu meðgöngu sem ég fór að fá í grindina. Ég var komin um 20 vikur á leið þegar ég var hætt að geta gengið eðlilega eða staðið í lengri tíma vegna verkja. Allar stellingar voru slæmar og fór þetta að leggjast mjög illa á sál mína jafnt og líkama. Ég var tilbúin að prufa allt. Ljósmóðir mín stakk upp á því að prufa nálastungu, nálahrædda ég var fljótt að þyggja það því ég var tilbúin að prufa allt frekar en að vera með þessa verki! Ég fór í tvö skipti og ég hef ekki fengið í grindina síðan. Þvílíkt kraftaverk sem þetta var fyrir mig. Það er engin ein aðferð sem virkar og stundum því miður virkar ekki neitt annað en hvíld.

Hér eru nokkrir punktar sem voru deildir með mér þegar ég var að leita ráða varðandi grindargliðnun :
1. Snúningslak og silki rúmföt
2. Alltaf hafa þungann jafnt í báða fætur. Td þegar þú stígur út úr bíl vertu komin með báða fætur út áður en þú stendur upp. Þegar þú stendur hafðu þungann jafnt í báðar fætur.
3. Sofa með púða á milli fótanna
4. Ekki krossleggja fætur
5. Nálastunga
6. Sjúkraþjálfun

Hægðatregða og brjóstsviði :
Þessir kvillar eru mjög algengir á meðgöngu, ég hef þó einungis upplifað brjóstsviðan. Ég fann fullt af góðum ráðum við báðum þessum kvillum inn á :
http://www.ljosmodir.is/medgangan/medgongukvillar/haegdatregda/
http://www.ljosmodir.is/medgangan/medgongukvillar/brjostsvidi

Samdráttarverkir og hríðar, hvenær er fæðingin hafin? :
Mér var alltaf sagt að þegar samdrættir með verkjum eru orðnir reglulegir og útvíkkun hafin þá er fæðingin byrjuð. En það eru skiptar skoðanir á því…
Þrátt fyrir að allar mínar meðgöngur hafa verið mjög ólíkar þá hafa þær samt allar verið eins varðandi þetta.
Á minni fyrstu meðgöngu byrjaði ég að finna fyrir samdráttum mjög snemma, en þeir voru óreglulegir og verkjalausir. Ég varð smeyk við þá fyrst en þegar þetta var útskýrt nánar fyrir mér þá er þetta mjög eðlilegt. Þegar ég var síðan komin um 35-37 vikur fóru verkirnir að aukast og ég var fljót að fara að láta athuga hvað væri í gangi. Útvíkkun var hafin og ég lögð inn, fékk lyf til þess að stöðva fæðingu og send heim þegar verkirnir slógu niður. Það dugði skammt en ég var mætt aftur upp á spítala með verki sem ég var farin að kasta upp með og þá var athugað með útvíkkun og var hún komin upp í 6 en stopp þar. Það átti að bíða þar til ég myndi sjálf fara í gang en þar sem ég var búin að vera lengi með verkina og ferlið hafið þá var tekin sú ákvörðun að sprengja belginn. Sama sagan var í gegnum fyrstu fjórar fæðingarnar en ég hef alltaf byrjað að malla í gang en síðan stoppað með 4-6 í útvíkkun þar til sprengt hefur verið belginn og fæðingarnar gengið vel. Núna á minni fimmtu og síðustu meðgöngu var ég alltaf senda aftur heim þrátt fyrir að hafa náð yfir 39 viku og vildu þær bíða þar til ég myndi byrja sjálf í fæðingunni. Ég var farin að loka mig af, lífsviljinn var núll og orkan slík að ég fór lítið annað en úr rúminu og í sófann. Að vera verkjuð stanslaust og vita að þú getur ekkert við þeim gert þrátt fyrir tilraunir með verkjalyf er ömurleg tilfinning, bara að bíða og vona að þeir myndu versna… Ég byrjaði að fara í gegnum allar leiðir til þess að framkalla þessa fæðingu náttúrulega þar sem ég var hætt að líkjast sjálfri mér og andleg vanlíðan farin að aukast til muna. Loks tókst það eftir marga daga af verkjum og með 5-6 í útvíkkun! Ég furða mig ennþá á því hvernig það sé betri lausn að láta móður kveljast en að grípa inn í þegar ferlið er komið svona langt en ég er ekki ljósmóðir og einhverjar eru ástæðurnar.

Hér eru nokkrar aðferðir sem mælt er með til þess að framkalla fæðingu á náttúrulegan hátt :
* Ananas
* Nudd. Það eru nokkrir punktar sem mælt er með að nudda og þrýsta á, hér er video sem sýnir þetta nákvæmlega : https://www.youtube.com/watch?v=wnEcLSHTI0s
* Kynlíf
* Nudda og örva geirvörturnar
* Nálastunga
* Red raspberry leaf tea
* Sterkur matur

Verkjameðferðir í gegnum fæðinguna :
Hverjar hafa verið spurðar eftir fæðingu : Þurftir þú mænudeyfingu? Gerðir þú þetta náttúrulega? Hvaða deyfingu fékkst þú? Samkeppnin er allstaðar og hún er þarna líka ótrúlegt en satt! Það er eins og sumar konur setji sama sem merki um sársaukaþröskuld eða hversu mikill nagli þú ert á því hvaða verkameðferð þú notar, sem er svo rangt. Engin fæðing er eins og tel ég að hver kona þurfi að finna út fyrir sig, jafnvel jafnóðum því þú veist aldrei hvernig hlutirnir þróast í fæðingunni og stundum þarf maður bara að gera það sem þarf til til þess að klára ferlið! Það getur engin sagt við þig : Ég þurfti ekki að nota neitt ég harkaði þetta bara af mér og átti náttúrulega afhverju gerir þú það ekki líka? Það er miklu betra fyrir barnið!
Þetta var sagt við mig og ég burðaðist með það samviskubit í nokkra mánuði þar til ég ákvað að koma því frá mér og vinna úr því að það væri mér að kenna að barnið mitt hefði fæðst heyrnarskert því ég fékk mænudeyfingu og notaði gasið! Ég get alveg fullyrt það að það væri ekki verið að bjóða konum upp á þessar leiðir ef þær myndu teljast skaðlegar fyrir barnið. Ef fæðingin er það sársaukafull að móðir telur sig þurfa að nota verkameðferðir þá er mun öruggara að hún notist við slík úrræði heldur en að þrjóskast í gegnum þetta uppgefin á sál og líkama.

En nú ætla ég að fara í gegnum verkameðferðirnar sem ég hef notast við :

Ég hef prufað mænudeyfingu, gasið, baðið, bolta og rólu.
Mænudeyfingin gerði það að verkum að ég fann ekki fyrir verkjunum og mín upplifun varð svona eins og þegar maður er hauslaus af drykkju! Þegar þú finnur ekkert til, stjórnar ekki aðstæðum en ert samt meðvituð um hvað er í gangi. Mér fannst þetta mjög vond tilfinning svo ég ákvað að ef ég myndi einhvern tímann ganga í gegnum þetta aftur þá myndi ég aldrei þyggja mænudeyfinguna. EN ég þekki helling af konum sem hafa góða upplifun af mænudeyfingu og hefðu ekki vilja upplifa þetta án hennar, svo enn og aftur tek ég fram að þetta er bara mín reynsla sem ég deili hér.
Baðið fannst mér mjög þægilegt að fá að liggja í, hins vegar var ég mjög stressuð allan tímann að eiga í baðinu. Ég fór að sjá fyrir mér að höfuðið myndi festast og ég myndi drekkja barninu svo ég var mjög fljót að koma mér upp úr því. En það sló á þrýstinginn á mjóbakið og volga vatnið sló örlítið á verkina.
Ég hef prufað gasið tvisvar sinnum. Í fyrsta skiptið varð mér mjög flökurt, flökurleikinn gerði ferlið mun erfiðara og ég varð mjög ringluð. Það gerði ekkert fyrir mig verkjalega séð svo ég ákvað að ég myndi ekki nota það aftur. En síðan þegar ég átti mitt fimmta barn var mér bent á að gefa gasinu annan séns og bara prufa að anda mig í gegnum verkina með gasinu. Ég prufaði það og það hjálpaði mér helling. Ég fann mun minna fyrir hríðunum en fann samt fyrir hvenar þrýstingurinn kom og hvenær ég átti að ýta.
Boltinn og rólan voru bæði mjög góð í gegnum hríðarnar og tel ég þyngdaraflið spila stóran leik þar. Þeir sem ekki þekkja róluna þá er þetta þannig róla að þú hallar þér fram í róluna og stendur á gólfinu. Þannig getur maður sveiflað sér og ruggað rólega án þess að vera með allan þungann beint niður.

Fæðingin :
Þegar hríðarnar byrja hefur mér þótt lang best að standa upp við rúmið. Hafa rúmið stillt í þá stöðu að ég get hallað mér fram á rúmið og staðið með fæturnar niður á gólf. Ruggað mér fram og aftur og beðið þar til þrýstingurinn byrjar. Ég átti minn fjórða strák standandi og var það ein besta fæðing sem ég hef upplifað. Það var mun minni þrýstingur aftur í mjóbak og niður í rassinn, þrýstingurinn fór beint niður og gekk þetta mjög hratt fyrir sig. Ég reyndi að gera slíkt hið sama með minn fimmta pjakk en þar sem ég var orðin svo ótrúlega uppgefin eftir marga daga af verkjum þá gat ég ekki staðið í fæturnar þegar hríðarnar byrjuðu almeninnilega. En ég stóð og ruggaði mér þar til ég gat ekki meir þá lagðist ég upp í rúm og kláraði fæðinguna þannig.

Eftir fæðinguna :
Hver hefur ekki heyrt : Um leið og þú færð barnið í hendurnar þá gleymir þú sársaukanum. Þetta er ein versta lýgi sem mér hefur verið sögð! Ég man þegar ég fékk mitt fyrsta barn í hendurnar og svo fegin að hríðarnar voru búnar en þá var það bara út með fætur og saumaskapurinn hófst! Ég var klippt í fyrstu fæðingu og saumaskapur eftir því, ég lá þarna með nýfætt kríli í höndunum og mig langaði að öskra úr sársauka. Þegar ég síðan hélt að sársaukinn væri búinn þá var hann bara rétt að byrja.

Klósettferðir og brjóstagjöf :
Það getur verið mjög sársaukafullt að pissa fyrstu daganna eftir fæðingu. Nú eru ljósmæður farnar að mæla með því að pissa bara í sturtu fyrstu daganna og trúðu mér þú vilt gera það. Þvílíkur munur… Þegar ég var búin að eiga mitt fyrsta barn var engin sem benti mér á að pissa bara í sturtunni svo klósettferðirnar voru mjög sársaukafullar og var mér farið að kvíða fyrir því að fara á klósettið. Ég takmarkaði drykkju mína og borðaði lítið sem er mjög slæmt. En að pissa í sturtunni breytti öllu svo ég mæli hiklaust með því.
Þá er það brjóstagjöfin, hún getur nú verið mjög misjöfn og sumar konur kjósa bara að sleppa henni alveg. Það er bara ákvörðun sem hver og ein tekur fyrir sig og ekki okkar að dæma. Geirvörturnar springa út og geta verið mjög aumar fyrstu vikurnar, þú getur fengið stálma og allskonar leiðindi og síðast en ekki síst helvítis samdráttaverkirnir sem allir virðast gleyma að segja frá. Þetta er sársauki sem fylgir því þegar legið er að dragast saman. Ég var orðin svo spennt að upplifa þessa frábæru stund með barninu mínu sem allar mæður virðast lofsyngja, sitja í rólegheitunum og gefa barninu mínu brjóst á meðan ég þefa af því nýburra lyktina og dáist að þessu kraftaverki sem okkur tókst að skapa! Það var ekki mín upplifun, ég grét úr sársauka í hvert sinn sem ég lagði á brjóst fyrstu vikuna, mér varð flökurt af sársauka og ég fann hvernig kvíðinn fór að aukast fyrst um sinn því ég þekkti ekki þetta tímabil og var farin að sjá fyrir mér að þetta yrðu verkir sem myndu standa yfir svo lengi sem ég væri með barnið á brjósti. En það er ekki svo slæmt, þetta getur staðið yfir í nokkra daga upp í viku eða tvær. Það sem hjálpaði mér voru kaldir og heitrir bakstrar sem ég lét liggja neðst á kviðnum á meðan ég gaf brjóst, ef að mér var flökurt þá fannst mér betra að vera með kaldann bakstur eða ískaldan þvottapoka annars lét ég heitan bakstur liggja og það dregur úr verkjunum.
Fyrir aumar og sárar geirvörtur mæli ég með kremi sem heitir Lansinoh Lanolin, það er mjög stíft en gott er að nudda því aðeins saman með tveimur fingrum og bera það síðan á. Þetta krem er einnig snilldar varasalvi! Kremið fæst í flestum apótekum og barnaverslunum.
Fyrir mjög aumar eða of litlar geirvörtur er mælt með því að nota mexican hatt en það er eins og pela tútta sem þú leggur yfir geirvörturnar áður en þú byrjar að gefa brjóst. Það fæst einnig í apótekum og sumum barnaverslunum.

Félagslífið :
Það getur verið mjög auðvelt að detta í þann gír að loka sig bara af og vera heima eftir fæðingu. Rúmið og sófinn eru orðnir okkar gríðastaðir og maður kominn í kósýgírinn. Þú ert allt í einu hætt að svara í símann, kominn annan hring á Friends seríunni og fólk farið að fjarlægjast. Trúðu mér það er mjög auðvelt að detta í þennan gír. Það sem ég mæli með er að komast aðeins út úr húsi, þótt það sé ekki nema að skreppa út í búð eða 10 mín göngutúr.

Hvíldin :
Eftir fæðingu er mikilvægt að leyfa líkamanum að jafna sig og hvílast vel fyrstu daganna. Ég man þegar mér var sagt að leggja mig í hvert sinn sem barnið myndi taka lúra hvað mér fannst það fáranleg hugmynd því ég ætlaði sko heldur betur að nýta tímann, ganga frá þvottinum, taka til eða sinna því sem ég þyrfti að sinna á meðan barnið væri sofandi. Ég keyrði mig út, náði ekki að sofa á nóttunni því ég þurfti að vakna og gefa þegar barnið kallaði og oftast er engin rútína á því fyrstu mánuðina. Ég fékk samviskubit yfir því að leggja mig svona oft á daginn því þá gæti fólk farið að dæma mig fyrir að vera löt og alltaf sofandi. Ég þurfti að lenda á vegg til þess að átta mig á því að þetta skiptir sköpum fyrstu mánuðina eða á meðan þú ert að jafna þig og barnið að finna sína rútínu. Vertu þolinmóð og leyfðu þér að hvílast, þvotturinn verður alltaf á sínum stað og það skilja allir að nýbökuð móðir þarf sína hvíld <3

Ég fékk svo ótrúlega margar spurningar sem ég ætlaði að reyna að svara en þá yrði þessi póstur mun lengri og þess vegna langar mig að benda á snilldar heimasíðu þar sem má finna svör við öllum þessum spurningum sem tengjast meðgöngu og fæðingu, en það er www.ljosmodir.is

Næsti póstur verður um líkamlegt form eftir meðgöngu, mataræði, fæðubótaefni á meðgöngu og á meðan brjóstagjöf stendur yfir. Fullt af góðum punktum sem ég ætla að halda áfram að deila með ykkur og ef það er einhvað sérstakt sem þið viljið að ég taki fyrir þá geti þið sent mér á snapchat : Hafdisbk eða í gegnum Facebook síðuna mína

Takk fyrir lesturinn
Hafdís Björg

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *