Hvernig get ég byrjað vikuna með trompi og endað hana þannig líka??

byrja á mánudaginn

Hver kannast ekki við þessa setningu : Ég byrja á mánudaginn!!
Ég hef allaveganna fengið að heyra þetta mjög oft og póstarnir hrannast upp á sunnudagskvöldum þar sem allir eru yfir peppaðir og til í slaginn en svo þegar mánudagurinn er liðinn heyrist ekki neitt frá sömu yfir peppuðu einstaklingunum fyrr en næsta sunnudagskvöld.
Já þetta er algengara en ykkur grunar og ég hef alveg dottið í þennan pakka sjálf en hvað getur maður gert til þess að breyta þessu?
Oft þegar maður verður mjög spenntur og vill svo mikið ná árangri þá fer maður að setja sér óraunhæf markmið, eins og ég ætla mæta 5x í ræktina þessa viku úr því að hafa náð að æfa 1-2x í viku!
Byrjaðu á því að setja niður vikuna, settu inn þann tíma sem þú ætlar að taka frá fyrir þinn tíma í ræktinni og hafðu hann eins heilagann og klippingin sem þú bókaðir fyrir 3 mánuðum.
En það er víst ekki nóg að æfa bara og æfa heldur þarf að huga að mataræðinu ef maður ætlar að ná árangri og það er oftast erfiðasti parturinn af þessu öllu saman.
Byrjaðu á því að skoða hvar þinn veikleiki er, er það sætindi? Ertu að gleyma að borða yfir daginn? Ertu að borða of stóra skammta? Er brauð grunnurinn í þínu mataræði? Hvað er það sem er að klikka í matarvenjum þínum sem þú þarft að laga? Um leið og þú ert búinn að átta þig á hvað það er sem þarf að laga settu þá fókusinn á það og byrjaðu smátt!
Eins og ég nefndi hér fyrir ofan ekki detta í pakkann að taka allt út og ætla bara að borða grænmeti, fisk og kjúkling í öll mál. Nei byrjum smátt og vinnum okkur í áttina að góðum matarvenjum.
Og síðast en ekki síst ekki plana bara mánudaginn! Taktu alla vikuna fyrir og skrifaðu niður hvernig hver og einn dagur á að spilast í gegnum þessi markmið og endaðu vikuna með trompi 😉 Góð æfing og góð máltíð!

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *